154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:49]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég átta mig á því, bara út frá þeirri umræðu sem er búin að eiga sér stað núna, að hæstv. ráðherra telur þetta frumvarp vera til þess fallið að ná markmiðum um að vernda náttúru, eða mér heyrist það. En ég get ekki séð það af lestri frumvarpsins. Þótt það séu smávægilegar breytingar þarna sem eru kannski til góðs þá finnst mér aðaltennurnar, þ.e. það sem yrði að vera til staðar til að virka sem raunverulegt forvarnagildi, þ.e. að fyrirtækin myndu sjá hag sinn í því að draga úr þessum slysasleppingum, ekki vera nægilega sterkar. Ég tel það ekki vera til staðar í þessu frumvarpi. Við sjáum það væntanlega betur þegar þetta mál fer inn til nefndar og vinnan hefst þar og umsagnaraðilar senda inn sínar umsagnir. Þá kannski kemur betur í ljós hvaða annmarka, ef einhverja, er hægt að laga.

En ég vil bara að það sé skýrt, og það var skýrt í minni ræðu, að ég tel í raun og veru að við getum ekki komið náttúrunni nægilega til varnar eða í veg fyrir óafturkræfan og alvarlegan skaða á náttúru. Við getum ekki komið í veg fyrir það á meðan við leyfum fiskeldi í opnum sjókvíum. Það var skýrt þegar við lögðum fram okkar þingsályktunartillögu um að banna fiskeldi í opnum sjókvíum. Það er bara staðan. Ég tel að það sé ekki hægt að koma í veg fyrir þennan skaða á fullnægjandi hátt með því að leyfa fiskeldi í opnum sjókvíum.

Þannig að fyrir mér er þetta frumvarp alls ekki nægilegt til að tryggja hagsmuni náttúrunnar og komandi kynslóða og taka þá fram yfir hagsmuni þeirra fyrirtækja sem græða á þessu. Mér finnst þetta frumvarp bara alls ekki ganga nægilega langt í því að vernda náttúruna þó að hæstv. ráðherra telji svo vera.